21 október 2011

Þótt þú langförull legðir...

Eins og þið sem lesið þessa síðu vitið sjálfsagt þá erum við hjónakornin ekki beint miklir heimsborgarar...ennþá! Við fórum einu sinni saman til London í þrjá daga og gistum á Kings Cross því það var ódýrast. Fengum viðbjóðslegt beikon í morgunmat og vorum í herbergi þar sem maður þurfti að ganga í gegnum sturtuna til að komast að pissa. Svo fórum við líka í viku til Kaupmannahafnar þegar Jóhannes var sjö mánaða og Rannveig sex ára. Frábær ferð, fyrir utan botnlangauppskurð Rannveigar sem setti vissulega strik sitt á ferðina. Einhverjar fjölskylduferðir fór Addi þegar hann var ungur drengur, meðan ég var í fjósastígvélunum að mjólka.  Ég dvaldi vissulega í Noregi eitt sumar þegar ég var 14 ára en þar fyrir utan höfum við ekki farið víða. Bara svona stuttar ferðir og aðeins í þessi tvö skipti saman.

Okkur finnst þessir flutningar okkar til Svíþjóðar því talsvert spennandi og það er nýtt fyrir okkur báðum að búa í úglöndum. Í þessa mánuði sem við höfum verið í Stokkhólmi höfum við fylgst vandlega með Svíunum, reynt að læra eitthvað nýtt, hvernig maður eigi nú að haga sér í svona stórborg og hvað einkennir líf þessara nýju nágranna okkar. Um daginn sat ég á kaffihúsi og beið eftir Rannveigu meðan hún var á sundæfinu og datt allt í einu í hug texti sem var í félagsfræðibók sem ég kenndi einu sinni. Þar var Svíi á ferð sem lýsti Íslendingum ansi fjálglega. Ég fór í framhaldinu að hugsa um það sem ég hef séð hér...so far!

-          Unnar kjötvörur. Það tók mig tvo mánuði að finna hamborgara í búðunum hér í nágrenninu sem innihéldu ekki kartöflumjöl og alls konar krydd og e-efni. Pylsurnar þekja hillurnar í búðinni, það eru bratwurst og grillpylsur og vínarpylsur og falukorv og guðmávitahvað. Ekkert bara Goða eða SS sko, ó nei. Við hjónakornin erum ekki allskostar sammála um ágætis þesskonar matvara (eða sko hvort þetta sé matur yfirhöfuð) en buðum nú samt tengdaforeldrunum upp á falukorv í síðustu viku. Það er sumsé Adda deild. Svo eru margir frystar með färdigmat – bara taka upp og skella í ofninn/örbylgjuna. Frosið lambakjöt tekur einn meter í kistunni en färdigmat svona 10. Og pylsurekkarnir tugir metra!

-          Lífrænar vörur. Fyrstu skiptin sem ég fór að versla sá ég bara lífrænt. Lífrænt út um allt. Ó svo gaman. Samt er eitthvað sem passar ekki í þessu öllu saman. Lífrænt í mínum huga passar ekki vel með öllum þessum unnu kjötvörum. Lífrænt finnst mér líka einhvernvegin haldast svolítið í hendur við umhverfisvernd en til dæmis er flokkun sorps komin afar stutt hér miðað við heima á Akureyri. Leik- og grunnskólar krakkanna flokka ekkert rusl, við flokkum ekki lífrænt og í háskólanum er fjalli af plastglösum hent saman við lífrænt sorp, pappír og plastdiska á degi hverjum, ekki er hægt að kaupa sér kaffi í bollum, allt í pappamálum, kennararnir fjölrita glærur eins og þeir eigi lífið að leysa og hvetja okkur jafnvel til að prenta út fleiri hundruð blaðsíður af lesefni. Það er eitthvað bogið við þetta og mér er illt í umhverfishjartanu mínu.

-          Hundahald. Aldrei séð annað eins. Sem gæti mögulega skrifast á það hversu lítill heimsborgari ég er en hér tilheyrum við fjölskyldan minnihlutahóp þeirra sem eiga ekki hunda. Á morgnana þegar við förum með Jóhannes í leikskólann (300m) mætum við að meðaltali sjö hundum með eigendum sínum. Margir eru með tvo og iðulega eru þetta ellilífeyrisþegar á hækjum. Í dag var kona með göngugrind með lítinn bolabít úti að ganga. Það fyndna var að hundurinn dró bandið á eftir sér og gekk því laus á undan konugreyinu sem fór afar hægt yfir. Í okkar hverfi virðist fólk líka eiga erfitt með að hafa hundana sína í taum og þrátt fyrir að hafa alist upp með hundi og hafa almennt séð nokkuð gaman að hundum þá er þetta heldur mikið af hinu góða. Að mæta skuggalegum gaur með risastóran lausan hund finnst mér ekki þægilegt, sérstaklega ekki þegar litli skæruliðinn hleypur líka laus...

-          I-phones og aðrar græjur. Hoppandi Hólakot. Eigum við eitthvað að ræða þessi litlu börn sem eru með Iphona? Og allt fólkið í lestinni? Þarna tilheyrum við líka minnihlutahópi. Skólasystur Rannveigar eru allar með einhverskonar Nintendo mini tölvu með sér í skólanum og leika sér í þeim í eftir-skólavistuninni. Svo fór bekkurinn hennar í Tunnelinn um daginn og þarna sátu þær fjórar saman og héngu í símunum sínum, sendu jafnvel sms á milli i stað þess að tala saman. Íslendingurinn í hópnum var hálf hissa á þessu athæfi jafnaldra sinna. Og talandi um græjur, barnavagnarnir eru sko Rolls!

-          Skófatnaður. Þarna koma fjósastígvélin aftur við sögu. Þau heita Hunter en ekki Nokia en eru annars voðalega svipuð þeim sem ég þrammaði á forðum daga meðan Addi skrapp í Campervennen með foreldrum sínum. Svo er það Converse. Þetta er svakalegt. Taldi 223 converse pör á leiðinni í skólann á dögunum.

 


Svo er það bara spurningin, hvort við komum heim eftir tvö ár í Converse og fjósastígvélum, með nýjasta Iphoninn og hund í bandi (eða ekki í bandi), maulandi bratwurst og lífrænt mæjónes...



6 ummæli:

  1. Skemmtileg lesning! Mér finnst þetta með matinn einstaklega áhugavert, lífrænt vs. tilbúið. Var einmitt að lesa bók um svipað málefni eftir bandaríksan gaur; Michael Pollan. Hann var að tala um að Bandaríkjamenn upplifa sig standandi frammi fyrir þessari spurningu þegar þeir ákveða kvöldmatinn: Lífrænt vs. skyndibiti? Og ekkert þar á milli.
    Hvernig er verðið á iPhone úti? Er þetta ekki miklu ódýrara en hérna heima? Fólk er náttúrulega mikið í lestum og svona, meiri tími til að nýta græjusíma heldur en hér heima þar sem maður er meira bara í bílnum sínum eða stuttum strætóferðum... eða hvað?

    SvaraEyða
  2. Iphone4 8 gigabite kostar um 5700 sænskar, eða rétt um 100 þúsund íslenskar...veit ekki hvað þeir kosta heima. En jú maður þarf að hafa eitthvað að gera í lestinni. Liðið er í Scrabble og allskonar leikjum í þessu dóti...

    SvaraEyða
  3. ég get svarið það. danir eru líka svona með þessi tól og tæki - það eru allir með einhverja rosalega síma og helst í leðurtösku og í bandi um hálsinn. það tekur nú reyndar allan sjarma af þessu og gerði mig bara ánægða með mitt drasl.

    hefði viljað sjá þessa hundakonu.
    taktu mynd næst!

    SvaraEyða
  4. En Valla mín við erum ekki beint að tala um nein fjósastígvél. Hunter stígvél á ca 20 þús íslenskar og svo eðal Ilse Jacobsen á svona 25-30 þús. Þú myndir aldrei tíma þeim í skítinn;)

    En ég verð nú að viðurkenna að ég myndi ekki afþakka iphone né hunter stígvél svíarnir mega alveg eiga falukorv fyrir mér, ojsveiattan

    SvaraEyða
  5. já en Hildur, þau líta NÁKVÆMLEGA eins út og fjósastígvélin mín gömlu frá Nokia. Fyrir utan náttúrulega Hunter merkið. Mér finnst reyndar Ilse miklu flottari. Hentug tíska sko! Svo er fullt af stígvélum svipuð og Hunter í búðunum á innan við 4000 íslenskar, það er kannski hallærislegt að vera ekki í alvöru merkinu...

    Ég ætti kannski að taka Dagnýju á orðinu og fara að taka myndir af hundakonunum. Mætti einni í gær með þrjá litla hvíta kjölturakka, hún sjálf staulaðist á hækjum gamla lúna greyið.

    SvaraEyða

við elskum comment!