25 júní 2011

Foreldrastund

Ég er nánast aldrei ein heima. En það gerðist í dag - mamma tók Jóhannes með sér á Krókinn og Addi fór í Lauga að sækja Rannveigu Katrínu. Ég var alveg eirðarlaus og vissi ekkert hvað ég ætti af mér að gera. Endaði svo á því að blasta FM Belfast og skúra, pakka niður kristal, þurrka af og endurraða í stofunni.

Það stóð á endum - ég var að klára þegar Rannveig og Addi komu heim. Við buðum drottningunni svo á Greifann. Það hafði staðið til í nokkurn tíma - eða frá því hún kláraði skólann. Þessi stelpa er ótrúleg - lauk píanónámi vetrarins með 8,4 í einkunn, fékk framúrskarandi góða umsögn og frábærar einkunnir fyrir allt sem hún gerði í skólanum og bætti sig mjög mikið í sundinu í vetur. Stóðst allar áskoranir með prýði, en þessi vetur hefur verið mjög krefjandi fyrir okkur öll, óvenju mikið að gera hjá foreldrunum (Addi var einmitt að ljúka diplomanámi í opinberri stjórnsýslu frá HÍ) og barnið kannski ekki fengið eins mikla athygli og hún á skilið. Við áttum frábæra kvöldstund saman og greinilegt að daman kann að meta að fá að vera ein með foreldrunum :o)

Enduðum kvöldið í Eymundsson þar sem við fjárfestum í kennsludisk og bók í sænskri tungu. Nú verður farið í stífar æfingar, jibbíkóla.

2 ummæli:

  1. Til hamingju með þessa flottu og duglegu stelpu. Megið vera virkilega stolt af henni :)

    SvaraEyða
  2. Hún er ekkert smá dugleg og æðisleg! Það verður gaman að fylgjast með henni dafna áfram - og það í Svíþjóð. Sú á aldeilis eftir að plumma sig vel, eins og þið öll elskurnar :)

    SvaraEyða

við elskum comment!