18 september 2011

Sunnudagskósí

Á sunnudögum er gaman að kúra frameftir í náttfötunum og fá sér svo góðan morgunverð og kaffisopa. Ótrúlegt hvað kaffisopinn er indæll og notalegur á sunnudagsmorgnum, sérstaklega þegar maður getur gluggað í Aftonposten í leiðinni...

Helgin hefur verðið notaleg - eins og hingað til. Við höfum reynt að vera ekki að stressa okkur mikið á lestri um helgar og reyna að njóta tímans saman. Í gær fórum við á ströndina í glampandi sól og blíðu eftir hádegið og kósuðum okkur þar fram að kvöldmat. Jóhannes situr á hækjum sér í fjöruborðinu og byggir listaverk úr sandinum, Rannveig aðstoðar hann og gamla settið sólar sig. Jóhannes var svo þreyttur í gær þegar við komum heim að hann komst ekki inn úr forstofunni - sofnaði í blautum gúmmískóm á forstofugólfinu.



Eftir kúrið í morgun fórum við á opið hús hjá hverfisslökkvistöðinni okkar. Rannveig prófaði reykkafaragrímu og fékk að sprauta úr slöngu, Jóhannes prílaði upp á slökkviliðsbíl og körfubíl og settist undir stýri. Mikið ævintýri - þó hvíslaði hann því að mér í lestinni á leiðinni þangað að hann væri hættur við að verða slökkviliðsmaður og ætlaði að verða lestarstjóri þegar hann yrði stór.








Addi fór á fótboltabar að kíkja á leik en við hin erum heima í sunnudagsrólegheitum með stækkandi snúðadeig í skál og perlur, Strumpa og heimalærdóm á borðinu. Haustlegur dagur í dag, svolítill vindur og skýjað. Þó eru fimmtán gráður á mælinum.

Afmælisdagur pjakksins gekk vel fyrir sig - hans beið svakalega flott BMX hjól þegar hann kom fram í stofu um morguninn. Hann fékk að hjóla á því í leikskólann, að sjálfsögðu með nýja hjálminn sinn á kollinum. Í leikskólanum fékk hann kórónu og svo sat hann í hásæti meðan börnin sungu fyrir hann. Allir fengu svo ís í tilefni afmælisins, í boði leikskólans. Þegar heim var komið biðu hans nokkrar kærkomnar gjafir og súkkulaðikakan góða sem við Rannveig bökuðum. Lego, Strumpadvd, bækur og perlur komu upp úr pökkunum og litli snáðinn var eitt sólskinsbros og afskaplega þakklátur. Svo eru fleiri pakkar í póstinum - en póstþjónustan er ekki að standa sig. Pakkar sem voru sendir í byrjun september (og eiga að vera tvo til þrjá daga á leiðinni) eru ekki ennþá komnir. Hann getur þá látið sig hlakka til að fá fleiri afmælispakka næstu daga :) Takk fyrir!





Aldeilis spenntur strákur, nývaknaður á fjögurra ára afmælisdaginn!




Kominn heim úr leikskólanum...smá pakkaspenningur í gangi :)






Farinn í hjólatúr! Hey då!

5 ummæli:

  1. Gaman að heyra fréttir frá ykkur...það er auðvitað spennandi að verða lestarstjóri eftir allar lestarferðirnar í Svíaríki:-)
    Ástar- og saknaðarkveðjur til ykkar allra, KB

    SvaraEyða
  2. Hljómar afskaplega vel :) Ég er að plana AK ferð í afmælisveisluna 1. október og finnst afskaplega skrítið að koma ekki í Vanabyggðina og knúsa ykkur eða bara skella í einn kaffi, eiginlega bara pínu sorglegt :(

    SvaraEyða
  3. Æðislegar myndir af börnunum - að vanda. Mér finnst þau bæði hafa fullorðnast gríðarlega. Svo líst mér líka vel á Rannsý þarna í slökkviliðsgallanum!
    Krúttípúttíð þarna á gólfinu, hann fer svo gasalega vel við bleikt :) KNÚS!

    SvaraEyða
  4. Mér líst líka ansi vel á þessa slökkviliðsmenn... geta þeir komið með í sushi-dinner þegar við ARF mætum á svæðið? :)

    SvaraEyða
  5. Oh, gaman að sjá svona margar myndir, pínu eins og að kíkja í örheimsókn!

    Duglegu þið að gera sambosur! Þær eru líka mega góðar.

    Knús!

    SvaraEyða

við elskum comment!