06 september 2011

Betra er að vera á hvítum hlaupaskóm en á sokkaleistunum...

Ég er búin að fara í tvo tíma í náminu mínu í International and Comparative Education. Fyrsti tíminn var sumsé í gær. Ég komst að því að deildin mín er staðsett í húsi alveg lengst úti í rassgati. Ekkert Háskólabíó Oddi dæmi heldur svona meira eins og Melabúðin Oddi. Og malarstígar. Bye bye háir hælar í skólanum sko!

Byggingarnar sem við Addi höfum verið að dúlla okkur í - bókasafnið, kaffistofurnar, félagsvísindadeildin og stjórnmálafræðin eru algjörlega miðsvæðis. Allt fullt af fólki, sjoppur og kaffiteríur og lesborð og fólk sem situr úti og les undir tré. Allavega, mitt hús er ekki alveg þannig. Það er ótrúlega kósí samt - kaffistofa BARA fyrir okkur, með kaffivél þar sem maður fær latte á 10 kr (kostar 30 á kaffiteríunum), svona sjö örbylgjuofnum til að hita nestið sitt (hef ekki séð EINN örbylgjuofn eða annað sem tilheyrir nestisaðstöðu á aðalsvæðinu) og fullt af borðum, tölvur og okkar eigin prentari og ljosritunarvél. Kennararnir eru allir með skrifstofu í húsinu - dyrnar opnar og þeir eru afskaplega elskulegir. Svo er svona mini bókasafn deildarinnar, þar sem fólki er bara treyst til að skoða bækurnar á staðnum og skila þeim aftur í hilluna. Þar má líka finna allar doktors- og MA ritgerðir og jafnvel námskeiðsritgerðir sem maður getur gluggað í til að fá hugmyndir eða leiðbeiningar.

Í kennslustofunni eru aðallega hringborð, engin safnaðaruppröðun takk. Kennararnir neita að kenna okkur, við eigum að lesa ógeðslega mikið heima en þeir segjast ekkert ætla að halda fyrirlestra um það, bara segja okkur frá því sem þeim finnst áhugavert og svo vinnum við hópverkefni og höfum umræður. Mér líst ótrúlega vel á þetta! Kúrsarnir eru vel skipulagðir og kennararnir hafa ótrúlega fjölbreyttan og skemmtilegan bakgrunn. Deildarforsetinn og minn aðalprófessor hefur unnið mikið með Sameinuðu þjóðunum og hefur tengsl út um allar trissur og gerir sitt besta til að koma nemendum sínum inn hjá UN eða OECD. S P E N N A N D I! Hann er svolítið flottur gaur og það mætti halda að hann hefði hitt Geir Hólmars á góðum degi því dresskódið var alveg eins. Grá skyrta, gallabuxur og hvítir hlaupaskór...Hann er frá lítilli eyju í Indlandshafi, annars eru hinir kennararnir í náminu frá Kína, Japan og Svíþjóð.

Fyrsti tíminn var hræðilegur. Ég dó næstum því úr stressi og fannst ég minnst og vitlausust í hópnum. Það var skárra í dag og ætli ég eigi ekki alveg eftir að plumma mig bara. Fékk bara svolítið sjokk þegar ég heyrði hvað það voru margir sem höfðu ensku að móðurmáli eða voru með BA í ensku ;)

Það besta við að vera í svona alþjóðlegu prógrammi (sérstaklega í samanburðarmenntunarfræðum!) er að bekkjarfélagarnir koma víðsvegar að. Þarna er fólk frá Íran, Grikklandi, Rúmeníu, Ghana, Tansaníu, Suður Afríku, Kína, Kóreu, Mongólíu, USA, Kanada, UK...og ég er örugglega að gleyma einhverju. Og þau eru öll þarna til að breyta heiminum! Er ekki menntun einmitt lykillinn að betri heimi?

3 ummæli:

  1. Vá hvað er gaman að bera saman bækur sínar (eða ég að bera mig við þig altso). Ég var í fyrsta tímanum í dag og ég hefði eflaust farið að gráta ef ég hefði þó ekki verið búin að lesa heima og skildi því aðeins af því sem fram fór en treysti mér ekki til að leggja margt til málanna.

    SvaraEyða
  2. een skemmtilegt!
    KOSS frá Akureyri
    Heiðdís

    SvaraEyða
  3. Hljómar afskaplega vel. Stressið er bara merki um metnað, þú átt eftir að standa þig vel í þessu eins og öðru. Áfram þú duglega kona!

    J.

    SvaraEyða

við elskum comment!