28 mars 2013

Fotografiska

Við Addi (sem er svo heppinn að fá íslenska frídaga hjá Sendiráðinu) tókum daginn snemma og skelltum okkur í Fotografiska í dag - sem er ljósmyndasafnið. Það hefur lengi verið á dagskránni hjá mér og ég er auðvitað búin að missa af mörgum sýningum sem ég hefði viljað sjá en það verður bara að hafa það. Það eru fjórar sýningar í gangi á safninu núna, þarna er glæsilegur veitingastaður með panorama útsýni yfir borgina, gallerí og geggjuð búð.

Fyrsta sýningin sem við skoðuðum voru ljósmyndir (ef ljósmyndir má kalla) hollenska photo-shop gúrúsins Ruud van Empel. Hann kann örugglega allt sem hægt er að kunna á photo-shop og myndirnar hans eru ævintýralegar. Hann fer út í skóg og safnar myndum af laufblöðum, trjám og pöddum. Svo tekur hann myndir af krökkum, yfirleitt mjög hörundsdökkum börnum. Hann tekur líka myndir af efnum sem honum finnast falleg og pússlar þessu svo öllu saman í myndir í tölvunni. Hér eru tvær myndir sem voru á sýningunni, önnur er úr myndaflokki sem kallast Venus og hin, af strákunum, heitir World. Þessi mynd af drengjunum er eiginlega uppáhalda myndin mín á sýningunni.


Þetta var svolítið krípí og ævintýralegt, of fullkomið til að vera satt.


Svo var þarna sýning með myndum Henri Cartier-Bresson. Hann fæddist í Frakklandi 1908 ef ég man rétt og lést 2004. Hann ferðaðist út um allan heim og var svolítið eins og Hundraðåringen - réttur maður á réttum stað - og með myndavélina. Þetta voru svarthvítar myndir af fólki, lífinu og sögunni og vöktu þær allar margar margar spurningar. Ég var mjög hrifin af myndunum hans, ekki síst þessari hér að neðan, þar sem nokkrir Frakkar sjást kósa sig í picnik á sunnudegi, líklega upp úr 1930. Neðri myndin er frá Berlin 1961. Þær eru allar mjög svo "ekta", sennilega eins ólíkar myndum Hollendingsins og hægt er, enda fyrir daga photo-shop og tæknibrella!




Þriðja sýningin sem við skoðuðum voru myndir Önnu Claren, Close to home. Þær sýndu fjölskylduna í hversdagslífinu. Myndir af Önnu sjálfri, fjölskyldu hennar og vinum. Myndir af augnablikum sem allir þekkja vel en hefðu sennilega ekki fest á filmu, þau eru svo persónuleg. Nekt, nýfætt barn, brjóst full af mjólk, barnshafandi kona að bíða eftir fæðingunni, falleg náttúra; mikilvæg og dýrmæt augnablik sem við deilum með okkar nánustu og aðeins þeim. Það var það sem var svo áhrifamikið og jafnvel svolítið truflandi í leiðinni. Virkilega fallegar myndir. 




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

við elskum comment!