13 janúar 2013

Sunnudags

Sunnudagar eru uppáhalds hjá mér, algjörlega! Í dag lúrði ég svolítið lengur en vanalega og öll vorum við á náttfötunum fram yfir hádegi. Þó sátum við ekki aðgerðarlaus heldur var þrifið og skrúbbað svolítið hérna í íbúðinni okkar fallegu. Svo eldaði Arnar hádegismat. Það var reyndar ekkert uppáhalds við það sem hann ákvað að elda - BLÓÐBÚÐING.

Gunni mágsi kom þeirri flugu inn í höfuðið á Adda að blóðbúðingur væri eitthvað spennandi. Hann æstist því allur upp þegar hægt var að fá tvo pakka af blóðbúðingi í hverfisbúðinni okkar fyrir aðeins 10 krónur. Sértilboð, ekki láta þetta framhjá þér fara!

Svínablóð, rúgmjöl og einhver rotvarnarefni og fleira gums. Svipað og blóðmör en án mörs og svolítið þéttara í sér. Steikt á pönnu, borið fram með kartöflum og lyngonsultu. Nema hvað að við áttum ekki lyngon og notuðum ýmist enga sultu eða ribsberjahlaup. Svei, svo er heill pakki eftir í ísskápnum. Ætli Gunnar fái hann ekki sendan einhverntíman í febrúar, það er nefnilega helvíti góður stimpill á þessu.

Eftir þessa yndislegu máltíð örkuðum við Jóhannes snjóinn út í skautahöll. Hann æfir sig að renna á skautum á sunnudögum og í dag dró ég hann þangað á snjóþotunni í yndislega fallegu veðri. Snjór yfir öllu, skógurinn umlukti okkur á leiðinni og blóðrautt sólarlagið í bakið. Jóhannes var mjög duglegur á skautunum, farinn að fara um á hraða ljóssins en þó alltaf með tvær keilur á undan sér. Hann fæst ekki til að sleppa þeim blessaður drengurinn. Í dag rændi einn kennarinn þó annarri keilunni af honum og drengurinn var steinhissa á því hversu létt það væri að skauta með eina keilu í stað tveggja. Vonandi byrjunin á keilulausri skautaferð...

Hér er svolítið myndband af drengnum síðan í nóvember, á æfingu nr. 2. Honum hefur sumsé farið gríðarlega fram síðan þá!




1 ummæli:

  1. Litla músin... minnir mig á þegar ég reyndi statt og stöðugt að fá hann með mér í litlu rennibrautina í Sundlaug Akureyrar ;) Kreystfarið um hálsinn á mér er nýfarið!

    SvaraEyða

við elskum comment!