14 janúar 2013

Jólabókalesturinn

Þó lestur (annar en lestur fræðigreina og -bóka) hafi lítið gengið að undanförnu hefur mér þó tekist að ljúka við þrjár íslenskar "jólabækur". Ég er enginn gagnrýnandi eða bókmenntafræðingur en ég hef gaman af því að lesa og ég reyni að gera sem mest af því. Og ég hef í nokkur ár haldið lista yfir allar þær bækur sem ég les og gjarnan punktað niður nokkur atriði um hverja bók, til að hjálpa mér að muna eftir henni.

Bækurnar las ég í þessari röð.

Ljósmóðirin e. Eyrúnu Ingadóttur
Söguleg skáldsaga, saga af ljósmóður og kvenskörungi á Eyrarbakka/Stokkseyri í kringum aldamótin 1900. Ég er náttúrulega algjör sökker fyrir sögum um konur og baráttuna í gamla daga. Og gamla daga þýðir eiginlega alveg frá landnámi (t.d. Auður Djúpauðga) og fram yfir miðja síðustu öld. Femínistinn í mér og dramadrottningin í mér fer alveg á flug sko. Ég hef líka yfirleitt mjög gaman að sögulegum skáldsögum. Mér fannst stíllinn laus við tilgerð og sagan rann ljúflega áfram á síðunum. Engar sprengingar en skemmtilegar lýsingar og mér fannst mjög auðvelt að lifa mig inn í söguna af henni Þórdísi ljósmóður. Eina sem pirraði mig svolítið var að sumir (of margir) kaflar enduðu á því að gefa vísbendingu um framhaldið, sem mér fannst algjör óþarfi. Annars var ég líka mjög hrifin af myndinni á forsíðunni, ó já rómantíkerinn ég.

Gísli á Uppsölum e. Ingibjörgu Reynisdóttur

Æi hvað skal segja. Ég renndi í gegnum þessa bók á örskotsstundu og var ekkert sérstaklega hrifin. Ef satt skal segja. Mér fannst textinn tilgerðarlegur og það var eitthvað við stílinn sem fór í taugarnar á mér. Kannski var ég bara uppfull af reyktu kjöti og ekki í stuði þegar ég las bókina. Og kannski var ég nýbúin að lesa sögulega skáldsögu um Þórdísi ljósu og fannst eitthvað pirrandi að höfundur bókarinnar um Gísla skyldi reyna að gera sögu hans að einhverskonar ævisögu, sem virðist ekki byggð á miklu, sérstaklega ekki um hina mjög svo dramatísku barnæsku hans. Svo pirruðu uppstilltu myndirnar í bókinni mig. Þvílík dramatík! En ég hef alltaf viljað vita meira um Gísla á Uppsölum og fannst margt athyglisvert og áhugavert að rifja upp sögu hans. Að hugsa sér einbúann í dalnum, aleinan, húkandi í fimbulkulda yfir vetrarmánuðina... Mér fannst seinnihluti bókarinnar mun betri og ekki eins tilgerðarlegur. En kannski voru væntingarnar bara of miklar?


Ósjálfrátt e. Auði Jónsdóttur

Elskaði þessa bók. Fékk hana í jólagjöf og var að spá í að skila henni því langaði í svo margar aðrar bækur og hafði lítið heyrt um hana. Ákvað svo að lesa hana og festist á bls. 22. Komst bara ekkert áfram. Þurfti ró og næði (laus við börn og ættingja), fá að smjatta aðeins á skemmtilega textanum hennar Auðar og átta mig á sögunni og hver væri hvað. Svo ákvað ég bara að bíða með hana þangað til ég yrði komin aftur út til Svíþjóðar (en sagan gerist einmitt að hluta í Svíþjóð og það skemmdi svo sannarlega ekki fyrir!). Kláraði hana í gærkvöldi alveg súperánægð. Les hana örugglega aftur. Ég hef lesið nokkar bæku eftir Auði (Fólkið í kjallaranum, Tryggðarpant og Vetrarsól) og mér finnst þessi langbest. Þetta er einlæg fjölskyldusaga Auðar sjálfrar, afar dapurleg á köflum, einlæg og fyndin. Stíllinn er svo áreynslulaus og skemmtilegur og persónusköpunin frábær. Ótrúlega skemmtilegar sögur af nóbelsskáldinu okkar og ekki síður Auði Laxness. Rokkamma. Ég elska að lesa bækur sem innihalda svona mikið af vandlega völdum orðum sem hægt er að smjatta á. Setningar sem má lesa aftur og aftur af því að þær eru svo mikil snilld. Og án tilgerðar.

Svo er Yrsa uppi í hillu hjá mér, Hobbitinn og Liza Marklund (á sænsku). Já og ævisaga Olof Palme (á sænsku). Nóg framundan.

1 ummæli:

  1. Spurning um að lesa Ósjálfrátt! Annars er ég svona við það að klára Kulda e. Yrsu. Átti von á miklu meira, verður gaman að sjá hvað þér finnst :)

    ARF

    SvaraEyða

við elskum comment!