29 janúar 2013

NEI eða JÁ, nú eða þá?

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með Icesave umræðunni síðustu daga. Og raunar síðustu árin. Ég er í nei-hópnum. Lengi vel þorði ég varla að segja það upphátt. 5. janúar 2010 læddist ég hljóðlát um í vinnunni og lagði ekki orð í belg á kaffistofunni, þar sem forsetinn okkar fékk óblíðar kveðjur frá mörgum samstarfsfélögum mínum. Nú verðum við bara Kúba norðursins man ég að einn kollegi minn sagði við mig (hafði greinilega hlustað á einhvern hræðsluáróðurspistilinn frá lærðum prófessor í sjónvarpinu). Þetta var bara búið. Svo kom að hinum frægu kosningum, þjóðaratkvæðagreiðslu I. Enn læddist ég svolítið með veggjum. Margir, ef ekki flestir, sem ég umgekkst voru nefnilega algjörlega á öndverðum meiði við skoðun mína. Við yrðum og ættum að borga þetta, sama hvað. Annars bara...eitthvað!
Ég gat aldrei sætt mig við þetta. Af hverju ættum við að láta stórveldin kúga hinn almenna íslenska borgara til að gera allt sem þau vildu? Eftir að hafa beitt okkur hryðjuverkalögum, með tilheyrandi sársauka og ömurlegum afleiðingum? Áttu 320.000 Íslendingar, sem jafngilda 0,6% af íbúafjölda Bretlands, að taka á sig allt að 900 milljarða kr. skuld Landsbankans við fyrrverandi innistæðueigendur sína (sama upphæð og breska konungsveldið eyddi í brúðkaup Kate og Williams!). Var það bara yfir höfuð mögulegt? Kúba norðursins hvað? Mér fannst það bara ekki rétt. Auðvitað ættum við að gangast við lagalegum skuldbindingum okkar, um það snérist málið ekki, heldur hvort að við ættum að samþykkja ömurlega samninga sem væru stórveldunum jafn hagstæðir og þeir voru óhagstæðir okkur. Óhagstæðir er kannski ekki rétt orð; ómögulegir. Beinlínis. Það vill enginn láta kúga sig en það var nákvæmlega það sem Bretar, Hollendingar, IMF ásamt hinum Norðurlöndunum reyndu.
Þetta ömurlega mál klauf fjölskyldur, Alþingi, vinahópa; þjóðina. Annar hópurinn sakaði hinn um lága siðferðiskennd. Hlaupast undan bagga. Okkur yrði aldrei aftur treyst í hinu alþjóðlega samfélagi. Við værum þjóð sem stæði ekki við orð sín. Hinn hópurinn samanstóð af heilaþvegnum hugleysingjum sem vildi ekki standa með Íslandi. Heilaþveginn af stjórnvöldum og hræðsluáróðrinum sem sífellt dundi á okkur. Alþingi skiptist í tvennt. Ég persónulega hafði ekki mikinn áhuga á því að rökræða um þessi mál við fjölskyldu og vini og sagði fátt. Vildi ekki fá stimpilinn að-vera-á-siðferðislega-lágu-plani. Sem er algjörlega fáránlegt því fólk á að geta sagt sína skoðun. Kannski var ég líka bara hrædd um að þetta NEI vafstur endaði illa (við vitum hvað við höfum en ekki hvað við fáum). En í hjarta mínu fannst mér eini kosturinn í stöðunni að hafna þessum samningum. Ég yrði þá bara að standa með því síðar ef allt færi á versta veg.
Hallgrímur Helgason komst svo að orði í grein sinni frá 16. janúar 2010 og tekst nokkuð vel að orða mína afstöðu í þessu máli:
„Við eigum að gangast inn á að borga sanngjarnan hlut í þessu ráni. Ekki of mikið, ekki of lítið. Ég vil ekki tilheyra þjóð sem lætur beygja sig í duftið fyrir græðgi nokkurra gullfíkla. En ég vil heldur ekki tilheyra þjóð sem tekur enga ábyrgð á yfirlýsingum eigin ráðamanna og neitar að læra nokkuð af hruni alls þess sem sjálf hún kaus.“
Nú er þessu máli lokið. Þetta kemur okkur bara ekki við lengur. JÁ-fólkið segir að nú sé bara tími til að fagna og engin ástæða til að leita uppi sökudólga eða hver sagði hvað. Hamrað er á því hversu mikil áhætta þetta hafi verið og hversu mikið við höfum tapað á óvissunni (hversu miklu hefðum við tapað á því að samþykkja?) NEI-fólkið fagnar því að ákvörðun þeirra hafi að lokum reynst farsæl. Híar á hina, haha told you so, IN YOUR FACE og allt það. Ólafur Ragnar bjargvættur og hetja (þrátt fyrir að hafa gleymt að setja fyrsta samninginn í þjóðaratkvæði, samninginn sem Bretar og Hollendingar naga sig örugglega í handarbökin núna yfir að hafa ekki samþykkt). Allir í stuði eins og vanalega. En líklegast tapaði bara enginn. Ekki ef fólkið sem valdi sér skoðun (JÁ eða NEI) gerði það af eigin sannfæringu og fylgdi hjartanu. Þá hlýtur það bara að vera gott mál. Við verðum líka að læra að bera virðingu fyrir skoðunum hvers annars og geta rætt þær án þess að lítilsvirða persónuna sem er á viðkomandi skoðun. Þá kannski hættir fólk að læðast meðfram veggjum með skoðanir sínar.
Ég er nú bara ánægð með hvernig þetta fór og ætla ekkert að hía á neinn. Auðvitað hefði niðurstaða EFTA dómstólsins getað orðið okkur í óhag. En við létum á þetta reyna. Þjóðin kaus og hún ákvað að ganga frá þessu með reisn og við eigum að vera stolt af því. Svo heppilega vildi til, hvað svo sem má segja um Óla kallinn, að hann vaknaði loksins og talaði máli okkar Íslendinga út á við eftir að hann hafnaði Icesave II. Hann opnaði augu alþjóðasamfélagsins fyrir raunverulegu eðli og stöðu málsins. Hann stóð með Íslandi og íslensku þjóðinni. Og viðbrögðin erlendis frá hvöttu okkur NEI fólkið áfram, því þarna úti var lært fólk sem tók málstað okkar Íslendinga.
InDefence hópurinn vann þrekvirki. Þar sannaðist það hversu gríðarlega mikilvægt hið borgaralega samfélag er. Þarna voru einstaklingar sem lögðu það á sig að kynna málið út frá öðru sjónarhorni en ríkisstjórnin gerði, afla sér upplýsinga, reikna út hitt og þetta sem við hin höfðum hvorki tíma né getu til að gera. Þeir söfnuðu undirskriftum tugþúsunda Íslendinga. (Undirskriftir fólks sem margir í JÁ-hópnum fullyrtu að væru vitleysingar sem héldu þetta snúast um að borga allt eða ekkert). Ég er þakklátust InDefence af öllum í þessu máli. Við megum ekki gleyma þeirra framtaki og við verðum að halda áfram að vinna markvisst að því að efla borgaralega vitund barna og ungmenna á Íslandi. Það er gríðarlega mikilvægt og kannski helstu lærdómar síðustu ára.
Eitt sem við öll verðum að gjöra svo vel að viðurkenna og átta okkur á, er að stjórnmálamennirnir okkar hafa ekki alltaf rétt fyrir sér. Þeir eru fulltrúar okkar en stundum gleyma þeir að hlusta á þjóðina. Eða bara hreinlega velja að fara aðrar leiðir, af margvíslegum ástæðum. Það var gert í þessu tilfelli og margur JÁ maðurinn hélt fram þeim rökum að við gætum bara ekki kosið um svona tæknilega erfitt mál. Hinn íslenski almúgi hefði bara ekki vit á því að kjósa í þessu máli. Það finnst mér afar móðgandi og lítilsvirðandi við almennt séð sæmilega greinda og vel menntaða þjóð. Við eigum ALDREI að gera lítið úr lýðræðinu eða skyldu almennings til að fylgjast með, afla sér upplýsinga, mega og eiga að hafa skoðun á hlutunum. Okkur ber skylda til að veita hvert öðru aðhald og ef okkur er ekki treyst fyrir því þá nennum við varla að leggja það á okkur eða hvað? Sýnum unga fólkinu að það skipti máli, skoðanir þess skipta máli, það eru fleiri en ein hlið á hverju máli og það er okkar að kynna sér málið og taka afstöðu. Ekki fylgja afstöðu einhvers annars í blindni. Ef okkur er treyst til að velja gott og heiðarlegt fólk á Alþingi þá hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu til okkar að við séum virkir þegnar í lýðræðissamfélagi þegar kemur að öðrum málum.
Ævinlega.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

við elskum comment!