02 maí 2013

Fuglarnir eru komnir aftur...

"Mamma, ég ætla bara aðeins að gá hvernig veðrið er" sagði Jóhannes í morgun þegar við vorum að búa okkur í leikskólann. "Jú, fuglarnir eru að syngja, þeir eru komnir aftur, það er gott veður og vor!"

Litla angaskinnið er búið að bíða svo lengi eftir vorinu. Nú segist hann ekki vilja flytja aftur til Íslands því hann vilji búa þar sem góða veðrið er; í Stokkhólmi. Hann hefur heyrt að vísbendingarnar um vorið séu nokkrar - fuglar, söngur, grænt gras, blóm og jú svo þegar búið er að sópa sandinum af göngustígunum. Og nú er vorið loksins komið. Búið að troða kuldagallanum lengst inn í skáp og taka fram vindjakka og flíspeysu í staðinn, strigaskórnir brúkaðir í stað kuldaskónna og svo má fara á hlaupahjóli í leikskólann. Þvílík sæla! Svíar brenna burt veturinn og fagna sumrinu á Valborgarmessu, að kvöldi 30. apríl. Við Jóhannes og Rannveig grilluðum með vinum og fórum á brennu. Þar söng stúdentakór eldri borgara (allir með hvítar stúdentshúfur). Addi fór til Uppsala með nokkrum Íslendingum og fagnaði Valborg þar.

Nú eru aðeins tæpir tveir mánuðir þangað til við flytjum heim. Sá tími á eftir að vera óhugnanlega fljótur að líða og við erum farin að klóra okkur aðeins í hausnum yfir því hvernig við ætlum að koma dótinu okkar heim. Við erum ekki með mikið - engin húsgögn - en jú, slatta af nýjum bókum, borðspilum, útifötum sem taka mikið pláss, leikföng, skauta og skó. Sem fyrr er ætlunin að koma þessu öllu saman í ferðatöskur. Við komum bara með nokkrar ferðatöskur og ætlum heim aðeins með nokkrar ferðatöskur.

Addi á mánuð eftir í starfsnáminu og ég er búin að skila lokaritgerðinni (eða kvikindinu eins og ég hef kosið að kalla hana). Ég fæ nú samt ekki að verja hana alveg strax, líklega ekki fyrr en í byrjun júní. Draumurinn hefði auðvitað verið að klára þetta af sem fyrst en eitthvað gengur deildinni illa að púsla saman öllum þessum mastersvörnum.

Framundan eru ferðalög, tónleikar og gestakomur. Við eigum von á fjórum heimsóknum áður en við förum heim, við förum til Oslóar í næstu viku og svo ætlum við til Gotlands í júní. Addi fer á Kiss tónleika með Andra vini sínum, ég fer með nokkrum hressum íslenskum dömum á Beyoncé í lok maí og svo ætlum við Addi að sjá John Grant á Mosebacken 9. júní.
 


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

við elskum comment!