15 maí 2013

Velferðin...

Síðustu mánuði höfum við svolítið kynnst heilbrigðiskerfinu hérna í Svíþjóð. Rannveig hefur nokkrum sinnum fengið svokallaðan "hjärtklappning" sem ég veit ekki alveg hvað kallast á íslensku - en í stuttu máli sagt þá fer hjartað alveg á milljón. Í nokkur skipti hefur það alveg tekið tíu til fimmtán mínútur að jafna sig og eftir slíkt kast er hún alveg búin á því. Þetta hefur gerst í sambandi við æfingar og þá í upphitun - ekki við hámarks afköst.

Eftir meðal annars eina ferð í sjúkrabíl á barnaspítalann og dramatísk móment á keppni um daginn, þar sem hún sleppti einni grein og varð svo að hætta í miðju sundi í annarri, pöntuðum við tíma hjá Vårdcentralen og var í framhaldinu vísað til sérfræðings. Hún er búin að fara tvisvar í hjartalínurit, blóðprufu, skoðun hjá sérfræðingi og á næstunni þarf hún í lungnapróf og í áreynslu-hjartalínurit. Allt hefur litið eðlilega út hingað til og sennilega engin ástæða til að hafa áhyggjur af þessu - en samt sem áður er þjónustan þannig að það er ekkert verið að spara við rannsóknir og skoðanir, allt á að skoðast almennilega og ekki þarf að bíða eftir tíma í marga mánuði. Og þetta kostar ekki neitt. Núll krónur. Ekki einu sinni komugjald.

Við vorum hjá barnalækni í morgun og á leiðinni út spurði ég í afgreiðslunni hvort ég ætti ekki að borga eitthvað. Það var bara hlegið að mér. Konan sagði við mig að ég hefði greinilega ekki farið til læknis síðan ´97 eða eitthvað fyrst ég vissi ekki að það væri allt frítt fyrir börn undir 18 ára aldri. Þau voru ekki einu sinni með kassa/posa!
 

2 ummæli:

  1. Góðar kveðjur til Rannveigar. Kv. Svava Hrönn

    SvaraEyða
  2. Svona á þetta að vera! (þ.e. heilbriðgiskerfið, ekki hjartað í Rannvegu! - sem vonandi verður allt í lagi með)
    Anna nEy

    SvaraEyða

við elskum comment!