06 febrúar 2013

6991

Svo mörg eru orðin í MA ritgerðarskjalinu mínu, sem nú telur um 25 blaðsíður. Þau eiga eftir að verða talsvert fleiri. Og örugglega töluvert fleiri, ef ég þekki mig rétt. Ég er vön að skrifa meira en minna. Sem er kannski ekki alltaf gott en...í þessu tilfelli er viðfangsefni mitt mjög umfangsmikið (sennilega of) og verkkvíði minn helgast svolítið af því. Það er svo margt sem ég þarf að koma að.

Margir hafa spurt mig um hvað ég sé eiginlega að skrifa. Ég tala lítið um verkefni mitt, einfaldlega bara af því að ég hef ekki marga til að ræða það við. Sem er slæmt því það er mjög mikilvægt að fá annara sjónarhorn og álit og einfaldlega að æfa sig að ræða um viðfangsefnið til að átta sig betur á eigin afstöðu og áherslum. Vinnutitillinn er...


Global Education Policy and the Nation State: The case of Iceland
 
...og hann á örugglega eftir að breytast. Ég er að vinna með elsku risana okkar sem við elskum öll og hötum, ESB og OECD, þekkingarhagkerfið, hnattvæðingu og menntun. Og nýju "íslensku" menntastefnuna okkar. Ég set gæsalappir utan um íslensku af því að hún er ekkert séríslensk. Ég er ekki að taka út menntastefnuna, dæma hana eða spá í hvort hún sé góð eða slæm eða líkleg til afreka. Ég er að bera saman íslenska menntastefnu við Evrópustefnuna. Skoða þróunina í Evrópu samhliða þróuninni á Íslandi og reyna að meta áhrif risanna, orðræðuna og svo framvegis.

Þessar pælingar mínar eiga uppruna sinn í pælingum um alþjóðleg öfl sem öllu vilja ráða, leynt og ljóst. Alþjóðabankinn lánar peninga til uppbyggingu menntunar í fátækum ríkjum og segir þeim í leiðinni hvernig þau eigi að byggja upp menntastefnu sína - eins og hún er Bandaríkjunum.
Þeir lána sérfræðinga sem vita allt um málið, borga þeim skíthá laun sem eru í leiðinni hluti lánveitingarinnar. Bandaríkin eru áhrifamest OECD ríkjanna, sem gefa út leiðbeiningar til hvers og eins OECD ríkis árlega, um umbætur í menntamálum. OECD heldur líka utan um PISA könnunina sem nemendur tuga landa taka þátt í þriðja hvert ár. PISA stjórnar því að mörgu leyti hvaða þekking er talin mikilvæg og hver ekki - á heimsvísu. Evrópusambandið er með menntaáætlun og veitir miklu fjármagni í styrki til verkefna sem passa við menntaáætlunina...og svo framvegis.

Ég er sumsé uppfull af samsæriskenningum. Kannski of full af þeim. En sjáum hvert þetta leiðir mig, kannski segi ég skilið við samsærikenningarnar og geng í hjónaband með Risunum...

Ævinlega...
 
 

1 ummæli:

  1. Halló hér. Hvað eru komin mörg orð núna ? kv, FB

    SvaraEyða

við elskum comment!