03 febrúar 2013

Notaleg helgi að baki

Tíminn líður svo svakalega hratt - og um leið og maður fyllist svolitlum trega yfir því að tími okkar hér í Stokkhólmi sé senn á enda er ágætt að geta sagt bless við langa, kalda janúar og boðið febrúar velkominn. Við erum öll svolítið meðvituð um það núna hversu stutt er eftir af dvöl okkar hér og hversu vel við þurfum að nýta þessa mánuði sem eftir eru. Það er ekki til betri leið til þess en að eiga sem mest af góðum stundum með góðu fólki og safna skemmtilegum upplifunum í leiðinni!

Þessi helgi var sérdeilis prýðileg og nutum við samveru við góða vini og Rannveig braut blað í sundsögu sinni þegar hún komst á pall - tvisvar sama daginn.

Uppsalafjölskyldan okkar kom til okkar seinnipartinn á föstudaginn og að því tilefni fengum við okkur hráskinku og franskan brie. Og eitthvað fleira gott. Við pössuðum svo litla krúttkálfinn meðan foreldrarnir fóru í matarboð yfir á Vasastan. Það gekk svakalega vel og gaman að kynnast þessum tveggja ára fjörkálfi. Jóhannes Árni er mjög góður við hann þótt þolinmæðin sé stundum lítil, enda er hann búinn að gleyma því hvernig var að vera tveggja ára handóður kútur! Í gær fórum við mömmurnar með drengina í langan göngutúr í skóginum okkar í einstaklega fallegu veðri. Við prófuðum líka að ganga út á Mäleren - en þar naut fólk útiveru, ýmist hjolandi (!), gangandi eða skautandi. Margir voru með bakpoka og sennilega langt að komnir, á hraðferð úti á miðjum ís í glampandi sól. Leit ekki illa út verð ég að segja!

Jóarnir tveir voru svo orðnir lasnir í gær svo eitthvað varð helgin nú rólegri en ætlunin kannski var - og meiri innivera en maður helst hefði kosið. En við elduðum gott í gærkvöldi og smjöttuðum á góðu rauðvíni. Rannveig kom heim af sundmótinu um kvöldmatarleytið með vinkonu sinni sem fékk að gista. Þær voru fullar af hamingju með verðlaunapeningana sína, fyrsti hjá báðum. Það er svo gaman að vera 12 ára, held ég, þær flissuðu og hlógu og grétu úr hlátri og sögðu brandara og gerðu að gamni sínu og horfðu svo á bíómynd uppi í rúmi áður en þær lognuðust útaf. Pönnukökur og beikon í morgunmat og svo bíóferð, ekkert lát á hamingjunni hjá þeim tveimur!

 
Palla-Rannveig með silfrin sín í 50 m. flugsundi (37,55 fyrir þá sem hafa áhuga á sundtímum) og 4x50 fjórsundi með elsku bestu sundvinkonum sínum. Besti félagsskapur í heiminum held ég bara, alltaf brosandi og kátar þessar stelpur, kurteisar og krúttlegar.

1 ummæli:

við elskum comment!